Fiskur, Skelfiskur
Leave a Comment

Kræklingur í Bola-bjórsoði með tómötum og hvítlauk

Boli er tiltölulega ljós, evrópskur lagerbjór í stíl sem kenndur er við hið þýska októberfest. Sem slíkur hentar hann auðvitað prýðisvel með hvers kyns grillmat, t.d. grilluðu kjöti eða matarmiklum pylsum. Í anda þess að fara óhefðbundnar leiðir ákvað ég að nota hann aðeins öðruvísi. Ég ákvað s.s. að para hann ekki við grillmat, þið getið gert það sjálf og uppskorið í flestum tilvikum fyrirtaks samsetningu. Passið ykkur bara að halda sýrum í hófi (þar á ég við grillsósur sem byggja á ediki og súrum eða súrsuðum mat og meðlæti). Ég ákvað líka að taka þetta skrefinu lengra því ekki aðeins paraði ég Bola við heppilegan rétt heldur notaði ég Bola í réttinn.

Frakkar standa, eins og flestir vita, mörgum þjóðum framar þegar kemur að mat og þótt vín séu þeirra sérstaða þá eru þeir ekki feimnir við að elda upp úr bjór. Þeirra einfalda mottó þegar kemur að bjór í mat er eftirfarandi: Notaði lagerbjór eins og hvítvín og öl-bjór eins og rauðvín. Útkoman er oft á tíðum bráðskemmtileg og athyglisverð matreiðsla þar sem margslungnir bragðtónar bjórsins gefa réttum alveg nýja vídd.

Frakkar eru jafnframt snillingar þegar kemur að krækling, enda er hans mikið neytt í norðanverðu Frakklandi, s.s. í Normandí, á Brittan-Skaga og suður með Biscan-Flóa. Flestir þekkja hefðbundinn hvítvínssoðinn krækling að franskri fyrirmynd, enda einfaldur og góður réttur sem auðvelt er að laga. Hér skipti ég hvítvíninu út fyrir lagerbjórinn Bola, nota kirsuberjatómata því þeir eru (venjulega) ekki eins súrir og slást því ekki við beiskjuna í bjórnum, og nota hvítlauk til að gefa aukna dýpt.

Fyrir 2

Hráefni:

1 kg. kræklingur (bláskel), helst íslensk því við eigum flott hráefni.
1 flaska, 33cl., af Bola.
1 lítill bakki af kirsuberjatómötum.
2 vænir hvítlauksgeirar, fínt saxaðir.
1 teskeið af þurrkaðri steinselju.
1 teskeið af þurrkuðum basil.
Væn klípa af smjöri, rúm matskeið eða svo.
Salt og pipar.

 

Aðferð:

Byrjið á að skola skeljarnar upp úr köldu vatni og henda þeim sem eru brotnar eða líta illa út.

Hellið bjórnum í hæfilega stórann pott (3l. ætti að duga) og kyndið undir. Skerið tómatana til helminga og setjið út í. Leyfið suðu að koma upp og setjið þá hvítlauk og krydd í pottinn. Látið malla þar til tómatarnir eru orðnir mjúkir/maukaðir en það má einnig „hjálpa“ þeim smá með því að nota gaffal eða stappara. Setjið loks smjörið út í og smakkið til með salti og pipar. Gætið ykkar þó að salta ekki of mikið því kræklingnum fylgir alltaf smá salt. Setjið nú kræklinginn út í pottinn, lok ofan á og leyfið honum að gufusjóða í ca. 10 mínútur eða þar til þær skeljar sem hafa opnað sig eru orðnar sæmilega opnar.

Veiðið þá kræklinginn upp úr pottinum, sorterið frá þær skeljar sem ekki opnuðu sig og hendið þeim. Skiptir kræklingnum í tvær skálar, hellið soðinu yfir og berið fram. Gott er að hafa hvítlauksbrauð með.

Passið bara að hafa skál fyrir tómu skeljarnar á borðinu og blautstykki til að þrífa hendurnar því þetta er subbulegur puttamatur.

Ég var mjög spenntur fyrir því að prófa þennan rétt. Bæði er ég mjög hrifinn af því að nota bjór í mat og svo var ég sérlega spenntur fyrir því að sjá hvort þessi þumalputtaregla Frakkanna myndi virka í þessu tilfelli. Það er skemmst frá því að segja að útkoman fór fram úr mínum björtustu vonum. Boli reyndist frábær matbjór auk þess sem hann hentar prýðisvel til drykkjar með réttinum. Fyllingin í honum er góð en ekki of mikil fyrir skelfiskinn og maltsætan paraðist vel við kryddið. Boli þolir kryddaðan mat almennt mjög vel. Við vorum þrjú í mat og svolgruðum öll í okkur soðið milli hvers bita af skelfisk.

Ást og virðing.

Hvað finnst þér?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s